Eins og fjallað hefur verið um í fréttum voru gerðar viðamiklar breytingar á þjónustu og umsýslu er varðar barnavernd á Íslandi sem tóku gildi þann 1. janúar s.l. Breytingar þessar fela fyrst og fremst í sér að þjónustusvæði einstakra barnaverndarþjónustu eru skilgreind að nýju og er nú áskilið að á bak við hverja barnaverndarþjónustu skuli vera 6000 íbúar að lágmarki. Önnur meginbreyting á lögum um barnavernd er sú að í stað þeirra barnaverndarnefnda sem starfandi voru í hverju sveitarfélagi fyrir sig er nú komið það sem kallað er umdæmisráð barnaverndar.
Hvað varðar fyrri meginbreytinguna, þ.e. 6000 manna þjónustusvæði, þá hafa sveitarfélögin á Norðurlandi vestra ásamt Fjallabyggð ákveðið að reka saman barnaverndarþjónustu sem kallast nú Barnaverndarþjónusta Mið-Norðurlands. Í samstarfi þessu er Skagafjörður svo kallað leiðandi sveitarfélag og ber ábyrgð á framkvæmd þjónustunnar fyrir hönd þessara sveitarfélaga.
Hvað varðar umdæmisráð, þá er nú búið að stofna fjögur umdæmisráð á landinu og eru þau sveitarfélög sem um ræðir hér að ofan aðilar að einu þeirra, Umdæmisráði landsbyggðanna, ásamt um 40 öðrum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Í umdæmisráðunum er áskilið að þar sitji lögmaður, sálfræðingur og félagsráðgjafi.
Þótt þessar breytingar séu talsverðar, þá verða mál sem berast barnaverndarþjónustu, unnin á vettvangi barnaverndarþjónustu hvers sveitarfélags eins og verið hefur fram til þessa. Tilgangur þessara breytinga er fyrst og fremst sá að auka faglega aðkomu sérfræðinga og jafnframt að skapa nauðsynlega fjarlægð í umfangsmiklum og erfiðum málum er tengjast velferð barna. Breytingar þessar taka mið af nýjum lögum um samþætta þjónustu á þágu farsældar barna sem tóku gildi þann 1. janúar 2022 og sveitarfélög landsins eru að innleiða sína þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.
Nánari upplýsingar um Barnaverndarþjónustu Mið – Norðurlands má finna hér