Kæru íbúar, það eru blendnar tilfinningar á þessum tímamótum þegar staðfest hefur verið að Skagabyggð mun sameinast Húnabyggð 1. ágúst 2024.
Hlutirnir eru fljótir að fara í hringi, en það var árið 1939 sem Vindhælishreppi var skipt upp formlega í þrjú sveitarfélög. Þá náði Vindhælishreppur yfir það sem við nú þekkjum sem Skagabyggð og Skagaströnd. Þarna var byggðin á Skagaströnd að byggjast upp og byggðin í Kálfshamarsvík að hverfa og þótti mönnum þá rétt að skipta svæðinu upp í þrjá hreppa sem urðu Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur. Ekki er mér kunnugt um íbúafjölda á þeim tíma en árið 2002 var þess krafist af sveitarfélögunum Skagahreppi og Vindhælishreppi að sameinast öðru sveitarfélagi vegna fámennis og úr varð að þeir sameinuðust 9. júní 2002 og til varð Skagabyggð.
Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað mjög undanfarin ár og var reynt að sameina alla Austur-Húnavatnssýslu árið 2021 eftir umtalsvert langa undirbúningsvinnu en þar felldu bæði Skagabyggð og Skagaströnd tillöguna, Skagabyggð þó með mjög litlum mun. Í kjölfarið var gerð könnun meðal íbúa Skagabyggðar og Skagastrandar hvort vilji væri til þess að sameinast en niðurstaða könnunarinnar meðal íbúa Skagabyggðar var ekki talin nægilega afgerandi til þess að sveitarstjórn þætti ákjósanlegt að fara í formlegar viðræður við Skagaströnd líkt og óskað var eftir.
Sveitarfélögin Blönduósbær og Húnavatnshreppur sem samþykktu sameininguna héldu áfram viðræðum og sameinuðust síðan árið 2022. Það ár voru sveitarstjórnarkosningar og þá hlaut ég kosningu í sveitarstjórn Skagabyggðar en þrír af fimm sveitarstjórnarmönnum báðust undan áframhaldandi setu í sveitarstjórn. Þar sem persónukjör eru í gildi geta þeir einir beðist undan kjöri sem hafa setið í sveitarstjórn og þá í jafnlangan tíma og þeir hafa sinnt stjórnarsetu fyrir sveitarfélagið. Það var því þegnskylda að taka sæti í sveitarstjórn. Ég gaf það strax út að ég hyggðist hafa þetta stutt kjörtímabil hjá mér með því að sameina sveitarfélagið helst innan tveggja ára.
Skagabyggð er tæplega 90 manna sveitarfélag með samninga um flest öll sín lögbundnu hlutverk. Af því leiðir að sveitarstjórn hefur mjög takmarkað með rekstur þess að gera og þarf að reiða sig á úthlutunarreglur Jöfnunarsjóðs til þess að standa skil á sínum skuldbindingum. Framlög Jöfnunarsjóðs árið 2023 voru 59 milljónir á meðan skatttekjur voru 57 milljónir. Skatttekjunum verður að halda í hámarki til þess að tryggja að framlög Jöfnunarsjóðs séu ekki skert. Af þessu leiðir að lítill sveigjanleiki var til staðar hvorki á tekjuhliðinni né gjaldahliðinni.
Mér var alveg ljóst að það væri hætta á að sveitarfélagið yrði ógjaldhæft ef úthlutun úr Jöfnunarsjóði myndi breytast mikið. Í slíkri stöðu væru fá úrræði fyrir sveitarstjórn, við gætum jú hætt að bjóða börnum okkar upp á tónlistarnám og leikskóla, en það vill held ég ekkert sveitarfélag hætta með slíka þjónustu.
Ég taldi því það vera algjört forgangsatriði í sveitarstjórn að laða fram sameiningarvilja. Ég kannaði hvort ekki mætti skipta sveitarfélaginu upp aftur og sameina í tvennu lagi ef ske kynni að fyrir því væri vilji íbúa en það var slegið af, af hendi ráðuneytisins. Þá var ákveðið að leggja vinnu í valkostagreiningu til þess að komast að niðurstöðu hvar við sæjum hag okkar best fyrir komið.
Ef við horfum á rekstur Skagabyggðar þá snýst reksturinn fyrst og fremst um þjónustu við börn og barnafólk, þó vissulega séu skipulagsmál, almannavarnir, brunavarnir og menningarmál svo eitthvað sé nefnt fyrir alla en þá voru útgöld vegna félagsþjónustu, fræðslu- og uppeldismála um 75% af skatttekjum sveitarfélagsins. Því fannst mér liggja beinast við að foreldrar barna í sveitarfélaginu hefðu mestra hagsmuna að gæta varðandi hvert sveitarfélagið ætti helst að sameinast. Niðurstaðan var sú að foreldrar barna á aldrinum 0-12 ára voru fengin til þess að fara í þessa valkostagreiningu sem endaði með því að erindi var sent á sveitarstjórn að þeirra tillaga væri að leita til Húnabyggðar.
Því erindi var vel tekið og vinna við sameiningu hófst í lok árs 2023, það var svo í júní 2024 sem kosið var um sameininguna. Niðurstaða kosninganna var jákvæð með rúmlega 75% atkvæða sem jafngildir að rúmlega 70% íbúa Skagabyggðar með kosningarétt hafa samþykkt sameiningartillöguna.
Það er mitt mat að það sé farsælt fyrir okkur íbúa Skagabyggðar að sameinast nú, við höfum verið í framkvæmdum upp á síðkastið, sett upp götulýsingu á heimreiðar og varmadælur á lögbýli og ekki má gleyma deiliskipulagi fyrir Kálfshamarsvík og uppbyggingu þar fyrir ferðamenn sem eiga leið um Norðurstrandarleið. Við getum sameinast stolt inn í nýtt sveitarfélag og með sameiningunni kemur sérstakt fjármagn frá Jöfnunarsjóði sem hægt er að nýta til innviðauppbyggingar svo ekki sé minnst á þá miklu vegaframkvæmdir sem nú þegar er hafin eða um 7km áfram út Skagaveg.
Það er því von mín og trú að þetta verði samfélögunum heillaskref og vil að lokum þakka íbúum fyrir góð samskipti á þessu stutta kjörtímabili mínu.
Erla Jónsdóttir
Oddviti Skagabyggðar