Tilkynning

AUGLÝSING
um staðfestingu innviðaráðuneytisins á sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar í eitt sveitarfélag

Með vísan til 124. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, tilkynnir ráðuneytið að það hefur í dag staðfest sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar í eitt sveitarfélag.

Sameiningin tekur gildi 1. ágúst 2024. Tekur sveitarstjórn Húnabyggðar við stjórn hins sam­einaða sveitarfélags samdægurs og fer með stjórn þess til loka yfirstandandi kjörtímabils. Heiti hins sameinaða sveitarfélags skal vera Húnabyggð og mun samþykkt um stjórn og fundarsköp Húna­byggðar nr. 1181/2022, gilda fyrir hið sameinaða sveitarfélag.

Íbúar sveitarfélaganna skulu vera þegnar hins sameinaða sveitarfélags. Hið sameinaða sveitar­félag skal taka yfir allt það land sem nú tilheyrir sveitarfélögunum tveimur. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhalds­gögn beggja sveitarfélaga skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu.

 

Innviðaráðuneytinu, 10. júlí 2024.

 

F. h. r.

Guðni Geir Einarsson.

Ólöf Sunna Jónsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 24. júlí 2024